Bragi Björnsson skrifar um skátastarfið: "Það er hægt að byggja samfélag þar sem fólki er umhugað um náungann og umhverfi sitt, samfélag vináttu og samstarfs."

 

ÞAÐ er vel við hæfi að sumardagurinn fyrsti sé sérstakur hátíðisdagur hjá skátum því að hann boðar spennandi tíma með góðum félögum. Þá er kominn tími til að dusta rykið af tjöldunum fyrir útilegur sumarsins. Í ár, á 100 ára afmæli skátahreyfingarinnar í heiminum, bíður skáta óvenjuspennandi sumar. Fyrir utan félagsmót og hefðbundnar útilegur munu skátar hittast á veglegu afmælismóti á Úlfljótsvatni í júlíbyrjun en rúsínan í pylsuendanum er heimsmót skáta á Englandi í lok júlí. Þangað munu 430 íslenskir skátar fara og slást í hóp rúmlega 42.000 annarra skáta frá 159 löndum.

Þeir sem ekki hafa tekið þátt í heimsmóti skáta geta ómögulega áttað sig á því hvílík lífsreynsla það er að búa í 10 daga í samfélagi einstaklinga frá öllum heimshornum þar sem konungar jafnt sem skólafólk deilir aðstöðu, flest tungumál heims eru töluð, öll helstu trúarbrögð heims iðkuð, allir búa í tjöldum, flestir eru á aldrinum 14 til 18 ára og hægt er að taka þátt í rúmlega 2.000 dagskráliðum sem spanna nær öll svið þjóðfélagsins og menningu jarðarbúa, s.s. að læra þjóðdansa frá Mósambík, smakka smákökur frá Póllandi, og máta gervifót frá Össuri á Íslandi, svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst að búa í samfélagi þar sem ríkir friður og bræðralag óháð deilum sem annars virðast einkenna sambúð manna á jörð.

 

Með þátttöku sinni í heimsmóti skáta vilja íslenskir skáta sýna það og sanna að hið ómögulega er mögulegt. Það er hægt að byggja samfélag þar sem fólki er umhugað um náungann og umhverfi sitt, samfélag vináttu og samstarfs. Á heimsmóti skáta öðlast skátarnir reynslu sem gerir þeim kleift að vera boðberar friðar og stuðla að samhug og vináttu í því samfélagi sem þeir búa í alla jafna. Það er einlæg trú skáta að hver einstaklingur geti haft áhrif og lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að bæta það samfélag sem hann býr í. Því hvetja íslenskir heimsmótsfarar landsmenn alla, jafnt unga sem aldna, til að færa íslensku þjóðinni þá sumargjöf að þeir strengi þess heit að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að friðvænlegra þjóðfélagi. Ef landsmenn allir taka þessari áskorun og fagna sumri með þeirri trú að þeir geti lagt sitt af mörkum til betra samfélags mun sumardagurinn fyrsti ekki einungis marka upphaf sumars heldur vera dagur vonar, vonarinnar um bjarta og sólríka framtíð.

 

Höfundur er aðstoðarskátahöfðingi og aðalfarastjóri íslenskra skáta á heimsmót skáta 2007.